
Mig langar að leggja orð í belg vegna þeirra deilu sem komin er upp milli Lyfja og heilsu á Akranesi og Apóteks Vesturlands á Akranesi vegna þess að ég er einn af þeim sem þarf orðið að nota mikið af lyfjum, því má segja að málið varði mig nokkuð.
Umræðan hefur verið nokkuð mikil um lyfjaverð á Íslandi í fjölmiðlum, hún hefur líka verið mikil á milli fólks hér á Akranesi. Það spurðist út fyrir nokkrum árum að lyfjaverð í Borgarnesi væri mun lægra en hér á Akranesi - það mikið lægra að það hreinlega borgaði sig að gera sér ferð í Borgarnes með lyfseðilinn. Það var rétt, ég sannreyndi það sjálfur.
Það fór nú svo fyrir lyfjaversluninni í Borgarnesi að lyfjarisarnir lögðu hana undir sig. Hvernig þeir fóru að því veit ég ekki sjálfur nema það sem ég hef lesið um í fjölmiðlum og það er ekki fögur lýsing. En hitt veit ég að það hætti að borga sig að fara með lyfseðilinn í Borgarnes eftir að Risarnir tóku yfir.
Það spurðist líka fljótt út að það væru Lyfjaverslanir í Reykjavík sem borgaði sig að fara í vegna afsláttar, og það reyndist rétt, ég athugaði það sjálfur. Mér þykir ólíklegt annað en að þeir hjá Lyfjum og heilsu á Akranesi hafi ekki orðið varir við að fólk leysti út lyfseðla annars staðar, ég veit um marga Akurnesinga sem það gerðu.
Ég veit að forráðamenn hjá Lyfjum og heilsu á Akranesi reyndu hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir að Ólafur Adólfsson fengi að opna apótek á Akranesi. Ekki bara að þeir reyndu að hafa áhrif á bæjarstjórnarmenn, þeir reyndu einnig eins og þeir mögulega gátu að hafa áhrif á heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra. Þegar þeim varð ljóst að þeir hjá ráðuneytinu fengju ekki bæjarstjórn Akraness til að leggja stein í götu Ólafs Adólfssonar, málið væri tapað, þá byrjuðu þeir að bjóða fólki sem þeir vissu að þurfti að kaupa mikið af lyfjum afsláttarkort, að vísu nokkuð skrítin afsláttarkort en af hverju ekki fyrr?
Það er glæsilegt þegar ungir menn hafa kjark og þor til að rísa gegn Risunum. Það sem gerðist á Akranesi er að þegar Apótek Vesturlands opnaði þá byrjuðum við Akurnesingar að fá lyf á sama verði og best gerist í Reykjavík. því virðast Lyf og heilsa ekki geta unað. Eigendur þar á bæ virðast ekki skilja hugtakið „frjáls verslun". Þeirra hugtak ef hugtak skyldi kalla er „frjáls verslun er eins og við viljum hafa hana og aðrir eiga ekki að koma þar nærri".
Ég vil skora á Akurnesinga að standa nú saman og versla við Apótek Vesturlands og þar með láta ekki lyfjarisann flæma Ólaf Adólfsson burtu héðan eins og þeim tókst að gera í Borgarnesi og Vestmannaeyjum og kannske víðar, því ef þeim tekst að flæma hann í burtu þá megum við vera viss um það, að það mun enginn þora að reyna að keppa við Lyf og heilsu framar.
Akurnesingar styðjum frjálsa verslun! ekki einokun! Styðjum Apótek Vesturlands.