Monday, September 24, 2007

Eflum öryggi – og heilbrigði


Samgönguvikan 2007 stendur nú yfir en þetta er samevrópskt verkefni og í fimmta sinn sem Reykjavíkurborg tekur þátt en einnig er Hafnarfjarðarbær þátttakandi dagskrá vikunnar. Markmiðið er að vekja almenning til umhugsunar um ferðavenjur sínar og nauðsyn þess að draga úr mengun af völdum bílaumferðar.

Vitanlega er það misjafnt til hvaða ráða menn geta gripið til að minnka bílaumferð. Sumir eru vel í sveit settir hvað varðar notkun almenningssamgangna. Aðrir eiga þann kost að hjóla eða ganga á meðan stór hópur getur ekki svo auðveldlega sagt skilið við einkabílinn til þess að komast leiðar sinnar. Það er mikilvægt að hafa umferðaröryggi í huga þegar ferðamáti vikunnar og framtíðarinnar er valinn. Hér verður gerð tilraun til að stikla á nokkrum mikilvægum atriðum varðandi öryggi hjólreiðamanna.

Það að hjóla er án efa ein heilsusamlegasta leiðin til að komast leiðar sinnar og á margan hátt mjög öruggur ferðamáti. Í umferðarlögum er reiðhjól skilgreint sem ökutæki og því gilda umferðarreglur og lög um notkun þess.

Það hefur borið töluvert á því að hjólreiðamenn standi í þeirri meiningu að þeim leyfist að hjóla öfugu megin, þ.e. á móti umferð. Það er ekkert sem heimilar það að hjóla á móti umferð og skulu hjólreiðamenn því ætíð hjóla hægra megin líkt og lög kveða á um með t.d. bíla. Það er mjög mikilvægt að hjólreiðamaður gefi tímanlega merki ef hann hyggst beygja eða skipta um akrein. Hjólreiðamaður má hjóla á gangstéttum og stígum með því skilyrði að tekið sé fullt tillit til gangandi vegfarenda. Stilla verður hraða þannig að fullt tillit sé tekið til gangandi og stundum getur reynst nauðsynlegt að gefa hljóðmerki til að vara gangandi vegfarendur við. Það má ekki reiða farþega á reiðhjóli. Þó má hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn sem er yngra en 7 ára en þá þarf barnið að vera í sérstöku sæti og þannig um búið að því stafi ekki hætta af hjólateinum.

Það er ekki mælt með að börn yngri en tólf ára hjóli á akbrautum, nema þá í fylgd með fullorðnum. Börnum 15 ára og yngri er skylt að nota reiðhjólahjálm en ljóst er að hann er mjög mikilvægt öryggistæki og því er mælt með því að allir noti viðurkenndan reiðhjólahjálm - bæði börn sem fullorðnir. Það er mikilvægt að foreldrar fylgist með því að börn þeirra noti reiðhjólahjálma og að þeir séu notaðir rétt.

Til að hjól teljist löglegt þarf hjólið að vera með eftirfarandi búnaði.
• Bremsur í lagi á fram- og afturhjóli
• Bjalla - ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað
• Á báðum hliðum fótstigs skulu vera hvít eða gul glitmerki.
• Gul eða hvít glitmerki skulu vera í teinum hjólsins.
• Þrístrend glitaugu - rautt að aftan og hvítt að framan.
• Reiðhjól sem notað er í myrkri eða skertu skyggni skal búið ljóskeri að framan sem lýsir hvítu eða gulu ljósi og ljóskeri að aftan sem lýsir rauðu ljósi.
• Keðjuhlíf - til varnar því að fatnaður festist í keðjunni.
• Lás.

Þessu til viðbótar er til margs konar búnaður sem eykur öryggi hjólreiðamanna enn frekar. Nánari upplýsingar um öryggisútbúnað hjólreiðamanna má finna á heimasíðu Umferðarstofu www.us.is.
Þótt hjólreiðar séu mjög öruggur ferðamáti þá stafar hjólreiðamönnum þó mest hætta af bílaumferð. Ef hjólreiðamaður lendir í árekstri við bíl þá er það eðli málsins samkvæmt hjólreiðamaðurinn sem fer verr út úr þeim árekstri. Það skiptir því miklu máli að ökumenn taki fullt tillit til hjólreiðamanna. Þeir eiga sama rétt og aðrir vegfarendur.

Það dugar skammt að sækja sér aukinn lífsþrótt og heilbrigði með því að hjóla ef ekki er um leið gætt fyllsta öryggis til verndar lífi og heilsu. Því skal þess gætt að framansögðum öryggiskröfum sé að minnsta kosti fylgt eftir.


0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home