Friday, April 21, 2006

VIRÐING FYRIR FÓLKI


(þessi grein birtist í Fréttablaðinu 21.4. í styttri útgáfu)Að kvöldi páskadags sýndi Stöð 2 viðtal Jóns Ársæls Þórðarsonar við Óskar Bergmann Albertsson í þætti um „okkar minnstu bræður”, eins fram kom í kynningu. Þó Jóni hafi án efa gengið gott til tel ég rangt að byggja umfjöllunina á eins konar „aumingjagæsku” líkt og orðalagið „okkar minnstu bræður” gerir ráð fyrir. Í því felst ákveðin vorkun og það viðhorf að fólk með þroskahömlun sé fórnarlömb einhvers konar harmleiks. Það að segir sig sjálft að það er afar erfitt að bera virðingu fyrir einhverjum sem við vorkennum og slíkur hugsunarháttur kemur í veg fyrir að fólk með þroskahömlun njóti sömu virðingar og aðrir þjóðfélagsþegnar.Sömu sögu er að segja af orðalaginu „þroskaheftur piltur”, sem einnig var vísað til í umfjölluninni. Það virðist mjög algengt að líta á fólk með þroskahömlun sem eilíf börn, þrátt fyrir að það hafi náð fullorðinsaldri, líkt og viðmælandi Jóns Ársæls í þættinum. Altént þykir mér afar ólíklegt að orðið „piltur” hefði verið notað ef um ófatlaðan mann á sama aldri væri að ræða. „Maður með þroskahömlun” hefði frekar verið við hæfi eða einfaldlega „maður”, því það er jú það sem viðmælandinn er fyrst og síðast, óháð öllum þeim stimplum sem skellt hefur verið á hann.Að lokum vil ég taka það skýrt fram að hér er ekki um áfellisdóm yfir Jóni Ársæli Þórðarsyni eða þætti hans enda er hann hvorki sá fyrsti né síðasti sem fellur í áðurnefndar gryfjur. Það er t.d. ávallt fremur undarlegt þegar rætt er um að fullorðin manneskja með þroskahömlun hafi greind á við barn því þá er um leið verið að gera lítið úr þeirri víðtæku reynslu og færni sem hlýst með árunum. Slík reynsla verður aftur á móti seint mæld á greindarprófum, sem segja í raun aðeins til um getu fólks til að læra ákveðna hluti en ekki aðra þætti í fari þess, svo sem persónuleika og skapgerð. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um sjálfsagða virðingu fyrir öðrum manneskjum og margbreytileika mannlífsins og því tel ég mikilvægt fyrir alla, ekki síst fjölmiðla, að taka eigin viðhorf til ákveðinnar endurskoðunar.Árni Viðar ÞórarinssonÞroskaþjálfanemi og áhugamaður um málefni fólks með þroskahömlun

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home