Monday, April 24, 2006

Færeysk rokkhátíð á Nasa

Á laugardaginn býður Atlantic Music Event upp á stærstu færeysku rokkhátíð sem haldin hefur verið hérlendis. 6 færeyskar hljómsveitir koma fram á Nasa ásamt íslensku gestahljómsveitinni Diktu.Færeysku hljómsveitirnar eru hver annarri merkilegri:- Högni Lisberg. Hann var trommuleikari í trip-hopp hljómsveitinni Clickhaze. Sú hljómsveit kom fram á nokkrum hljómleikum hér haustið 2002. Söngkona Clickhaze, Eivör, varð súperstjarna á Íslandi í kjölfarið og stimplaði sig til frambúðar inn á kortið í Danmörku þegar Clickhaze spiluðu á Hróarskeldu sama ár. Núna í ársbyrjun var Eivör tilnefnd til 6 danskra tónlistarverðlauna og landaði 2 þeirra. Högni er það sem kallast söngvaskáld (á ensku singer/songwriter). Hann semur seyðandi lög og syngur þau með sérstæðri rödd; stundum mjúkri eins og lögin en svo getur hann farið á sprett í rafmagnaðri lögum. Högni er kominn á kortið í Sviss og Belgíu og hefur líka komið fram á rokkhátíðum í Danmörku. Nýja platan hans, "Morning Dew", var kosin plata ársins í Færeyjum og er plata vikunnar á rás 2 núna. - Makrel. Tók þátt í Músíktilraunum hérlendis 2002 og náði bronsinu. Gítarsnillingurinn Rasmus var kosinn besti gítarleikarinn. Síðar var Rasmus einnig kosinn besti gítaleikarinn í Færeyjum. Í fyrra var Makrel kosin besta ósamningsbundna hljómsveitin af áhorfendum norrænu MTV en vegna vægis dómnefndar hafnaði Makrel í 2. sæti. Makrel hefur sent frá sér 3 plötur. Framan af var Makrel harðkjarna rokksveit en hefur aðeins mýkst.- Gestir. Sigruðu 2003 í færeysku "músíktilraununum" Prix Föroyjar með því að heilla erlendu dómarana í dómaranefndinni. Gestir spila framsækið (alternative) rokk.- Marius. Síðan "súper-grúppan" Clickhaze lagði upp laupanna vegna velgengis liðsmanna hennar sem einherjar (Eivör, Högni, Petur Pólssen, svo og Mikael Blak með pönksveitinni 200) hefur hljómsveitin Marius verið kölluð "næsta Clickhaze". Hljómsveitin heitir í höfuðið á söngvaranum Marius, sem áður var í Flux. Með honum í Flux var m.a. Rasmus gítarleikari Makrels. Hljómsveitin Marius spilar framsækið og kaflaskipt rokk sem hægt er að skilgreina í humátt að Muse.- Deja Vu. Þetta er "sýrt" tríó tveggja forsöngvara og gítarleikara og hljómborðsleikara. Þrímenningarnir radda skemmtilega og lög þeirra geta tekið óvænta stefnu. Sumt minnir örlítið á "Dark Side of the Moon" og fleira með Pink Floyd. Á þeirra einu plötu endar eitt lagið til að mynda skyndilega, eins og í miðju kafi og við tekur smá hænugagg og síðan heyrist í öðrum fuglum í töluverðan tíma. Í öðru lagi á plötunni heyrist allt í einu kona hlægja og síðan tala en það lágt að erfitt er að greina orðaskil. Flott hljómsveit sem náði silfrinu í Prix Föroyar 2003. Fyrst og eina plata Deja Vu var útnefnd plata ársins af dagblaðinu Dimmalætting.- Lena. Hún er poppuðust þeirra sem fram koma á Nasa. Hægt er að líkja henni að sumu leyti við Lisu Ekdal: Það er grunnt á vísnasöngkonunni og jafnvel djassistanum í "ópoppuðustu" lögum hennar. Lena er mjög góður söngvahöfundur. Aðrir hafa gert það gott með lögum eftir hana og hún sjálf er þekkt nafn í Kanada og Danmörku. Brian Ferry og Roxy Music völdu hana sem upphitunarnúmer fyrir sig í væntanlegri hljómleikaferð um Skandinavíu. Umboðsmaður hennar hefur einnig Paul McCartney á sínum snærum og hún er að fara að endurvinna eldri lög sín í Stúdíó 2 í Abbey Road, sama hljóðveri og Bítlarnir unnu samnefnda plötu. Ég hvet allt tónlistaráhugafólk að tékka á þeirri merku tónlistarflóru sem er að gerjast í Færeyjum með því að mæta á Nasa á laugardaginn. Þeir sem þegar þekkja tónlist Týs, Eivarar og 200 - sem og aðrir - munu upplifa stórkostlega skemmtun.Ég hef verið á hljómleikum hjá öllum þessum hljómsveitum og votta að þetta verður merkur og eftirmunalegur tónlistarviðburður

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home