Sunday, November 05, 2006

Heilög hugleiðing


Það er heiðskýr dagur og sólin er farin að teygja geisla sína inn í lífið. Allt virðist svo einstaklega friðsælt, þar sem þú situr og slakar á yfir tei. Engar sprengjur eða vélbyssugelt, næstum of friðsælt. Í gær voru loftárásirnar svo miklar að þú settist niður í afgangnum af húsinu þínu og beiðst eftir endalokunum. Endalokin komu þegar þú varst næstum sofnaður, sprengjurnar hættu bara að koma og eitt andartak hélstu að þú værir dáin. En þú varst það ekki, þeir hættu bara allt í einu. Núna eru liðnar sex klukkustundir síðan og úti er svo ósköp friðsælt að önnur lota getur ekki hafist strax og svo er líka sunnudagur og er ekki sunnudagur hvíldardagur hjá krisnum þjóðum?Það er farið að heyrast í lífinu fyrir utan rústirnar sem þú kallar heimilið þitt. Eitt herbergi eftir með þaki, annað er ónýtt. Reyndar hefur það verið ónýtt síðan löngu áður en krisnir menn hófu að sprengja þetta land upp í frumeindir og áður en Talibanar náðu hér völdum, húsið eyðilagðist í stríðinu við Sovétríkin og síðan þá hefuru búið hér í einu herbergi með þaki. Með þaki, já því það eru ekki allir jafn heppnir að hafa þak yfir höfuðið hér í höfuðborg rústanna, Kabúl. Fyrir utan heyrast hróp og köll, konur gráta syni sýna, karlmenn öskra fokreiðir og steyta hnefanum upp í loft. Þú þarft ekki að fara út til að sjá hvernig er umhorfs, þú hefur séð þetta daglega í mörg ár.Þú veist ekki hvers vegna krisnar og vitibornar þjóðir tóku upp á því að ráðast á þig og þjóð þína. Það hafa gengið sögur um að Bandaríkin séu að refsa Talibönum, en hvers vegna að gera heila þjóð ábyrga? Og það þjóð sem kaus þessa ógnarstjórn alls ekki?Hugsanir þínar splundrast um leið og afgangurinn af sjúkrahúsinu hverfur, drunur og gnýr, jörðin skelfur. Þú veist þú átt ekki möguleika, nema..... já nema.....Þú gengur í áttina sem sprengjurnar koma úr, með hina heilögu þrenningu í höndunum, gyðingdóm, Krisni og Islam. Þú ert ekki farin yfirum, nei þú veist að það er ekki annar möguleiki fyrir hendi. Þú gengur út úr höfuðborg rústanna og vonast til að geta kennt þeim þeirra eigin ritningu, þig langar að kenna þeim að fyrirgefa. Þú gengur til móts við draumana í þá átt sem eldrákirnar koma úr.

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home