Tuesday, August 29, 2006

Boðsbréf til allra - ekki aðeins áhrifafólks


Ómar Ragnarsson er ekki aðeins frábær frétta- og fjölmiðlamaður heldur líka ötull baráttumaður fyrir verndun íslenskrar náttúru. Fáir ef nokkur hefur eins gott yfirlit yfir íslenskar óbyggðir og Ómar. Ómar notar bæði hæfileika sína sem fjölmiðlamaður og þekkingu sína á landinu til þess að vekja og halda vakandi andstöðu við virkjanaframkvæmdum og því sem þeim fylgir, álveri og öðrum atvinnutækifærum. Ómar er ekki einn um þetta. Mótmælendur eru margir. Það er sárt að sjá á eftir landinu undir vatn. Það er líka sárt að sjá á eftir íbúum byggðarlaganna hverfa á brott, flytja, flýja, hverfa frá húsum sínum verðlausum. Ég get fullyrt að það var ekki af einskærum álversáhuga eða stóriðjuást að forsprakkar sveitarfélaga á Austurlandi völdu að fara þá leið sem varð ofaná. Það var engin önnur leið. Það hefur enginn, hvorki Ómar né aðrir mótmælendur, bent á aðra leið til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Jú, hin leiðin er að allir flytji suður og þá væntanlega ekki til þess að vinna í álverum á SV-horninu - en hvað? Það væri athyglisvert ef mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar létu frá sér fara yfirlýsingu um að heldur vildu þeir gefa á bátinni búsetu á Austfjörðum en þau óbyggðu og óbyggilegu svæði sem fara undir vatn. Þá væri líka tilefni fyrir Ómar að bjóða áhrifafólki til ferðar um hverfandi sjávarpláss og vissulega myndi Ómar gera það með þeirri elju og einlægni sem honum einum er lagið.

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home