Unglingavinnan gerir meira ógagn en gagn

Ég er mjög fylgjandi því að unglingar séu virkjaðir sem fyrst í atvinnulífinu, þ.e.a.s. mér líkar vel hugmyndin um vinnuskóla, sem á að kenna unglingum mikilvæg atriði sem snerta framtíð þeirra í atvinnulífinu. Þau þurfa að læra að mæta í vinnu tímanlega, læra að bera ábyrgð á þeim verkefnum sem þeim eru falin og fyrir það fyrsta læra að vinna!Vissulega eru þetta þau markmið sem hinn svokallaði vinnuskóli hefur að leiðarljósi að ég best veit, en varðandi fylgni þessarra markmiða er annað mál.Eins og staðan er í dag, er það mikið af unglingum sem skráðir eru á hvert vinnusvæði að verkefni fyrir þá eru engan vegin næg. Ég hef heyrt frá nokkrum krökkum sem fannst það voða sniðugt að þurfa ekkert að vinna í unglingavinnunni. Einn þeirra sagði mér hlæjandi frá því að hann hefði unnið í einu blómabeði nánast allt sumarið og m.a. nýtt sér "vinnutímann" til að sofa í beðinu. Þá sagði hann mér að flokkstjórinn þeirra leyfði þeim að fara fyrr úr vinnunni ef þau redduðu honum áfengi!Margir þessarra flokkstjóra hafa engan metnað fyrir starfi sínu og er alveg sama, meðan aðrir hafa metnað en ná ekki að fylgjast með unglingunum allan tímann og fá ekki næg verkefni fyrir þá.Niðurstaðan er sú sama; þessir unglingar komast upp með að gera ekki neitt heilu og hálfu sumrin og fá samt greidd laun fyrir. Ég veit um mörg dæmi þess að unglingar hafi beinlínis verið með dónaskap og fíflalæti við flokkstjóra sinn og komist upp með það án þess að vera ávítt að ráði eða rekin. Þá gera sumir þessarra unglinga sér að leik að mæta bara þegar þeim hentar og sleppa jafnvel heilu dögunum úr vinnu ef þeim þóknast, oft án þess að láta nokkurn vita eða biðja um frí.Viðhorfið virðist vera þannig að ekki megi reka þessi vesalings grey fyrst þau eru svona ung. Þau halda vinnunni óáreitt nánast hversu illa sem þau standa sig. Hvers konar skilaboð eru það fyrir óharðnaða unglinga og hversu góða reynslu fá þau af vinnumarkaðnum með þessu móti?Ég hef unnið með nokkrum unglingum sem höfðu enga reynslu áður en þau byrjuðu hjá byggingafyrirtækinu sem ég vann hjá, aðra en unglingavinnuna.Þessir einstaklingar reyndu að komast upp með sömu "vinnubrögð" og í unglingavinnunni, enda þekktu þeir engin önnur. Þessir einstaklingar entust margir hverjir ekki lengi í starfinu og var óvenju hátt hlutfall þeirra reknir.Vissulega á þetta alls ekki við um alla unglinga, ekki skilja mig svo. Til er fullt af ábyrgum og vinnusömum unglingum sem leggja metnað í starf sitt og sinna því með prýði þrátt fyrir að hafa ekki fengið sérstaklega góða reynslu í unglingavinnunni.En eftir stendur þessi hópur sem ég er að fjalla um í þessum pistli, þ.e.a.s. þeir unglingar sem fá í raun enga kennslu í réttum vinnubrögðum og fá ranga hugmynd af því hvernig málum er háttað á vinnumarkaði, vegna metnaðarleysis þeirra sem bera ábyrgð á þessum svokallaða vinnuskóla.Í dag er öldin önnur en áður var, þegar unglingar voru sendir í unnvörpum á sveitabæi til að venja þá við vinnu. Einnig er allt of mikið um að foreldrar nenni ekki að virkja börn sín í heimilisstörfum, en gefa þeim samt sem áður vasapeninga.Því vil ég hérmeð hvetja foreldra og forráðamenn barna og unglinga, ásamt þeim aðilum sem ábyrgð bera á vinnuskólanum að taka sig á í þessum málum, því framtíð Íslands liggur í höndum barnanna.´

0 Comments:
Post a Comment
Subscribe to Post Comments [Atom]
<< Home