Friday, March 10, 2006

UMFERÐARHÁVAÐAMENGUN


Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um loftmengun í Reykjavík, sem algerlega er rakin til mikillar umferðar. Minna hefur farið fyrir umræðu um hávaðamengun af völdum umferðar, sem þó plagar örugglega mun fleiri en loftmengunin gerir. Hávaði af almennri umferð er nokkur, en lang mestri hávaðamengun veldur tiltölulega fámennur hópur breyttra bifreiða, mótorhjóla og hávaðasamra jeppa og pallbíla. Nú virðist vera í tísku að breyta bílum með þeim hætti að þeir gefa frá sér óendanlega mikinn hávaða – skyldi það virkilega vera leyfilegt? Hvað yrði sagt við mig ef ég gengi um götur öskrandi og æpandi á hvaða tíma sólarhrings sem væri ? Ég ætti kannski að taka mig til og öskra á kvöldin og næturnar inn um gluggana hjá þessum aðilum sem eiga þessa bíla? Mótorhjól eru svo sérkapítuli útaf fyrir sig – það er með ólíkindum hversu mikinn hávaða svona lítið ökutæki getur framleitt. Því miður veldur þessi hópur tiltölulega fárra mjög mörgum óþægindum, sérstaklega þeim sem búa nálægt umferðaræðum. Það væri óskandi ef yfirvöld tækju á þessum málum – þetta er mengunarmál sem snertir mun fleiri en nokkur önnur mengun á Íslandi gerir.

0 Comments:

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home